Líf í borgarholtsskóla

Námsmat

Námsmat í einstökum áföngum skólans er fjölbreytt. Kennarar eru hvattir til að kynna sér og nota nýjungar á því sviði. Einkunnir eru gefnar á grundvelli símats, þ.e. án þess að fram fari formlegt lokapróf. Þessu fyrirkomulagi er m.a. ætlað að stuðla að bættum vinnubrögðum nemenda og jafnari dreifingu álags.

Vörður

Tvær vörðuvikur eru á hverri önn. Vörðunum er ætlað að veita nemendum upplýsingar um stöðu þeirra í einstökum áföngum auk þess sem þeir fá tækifæri til að ræða framvindu námsins við kennara sína. Nemendur fá mat samkvæmt skalanum hér að neðan auk umsagnar. Í kjölfarið ræða kennarinn og nemandinn um matið og skipulag námsins það sem eftir lifir annar. Fara viðtölin að öllu jöfnu fram í þeim tímum sem fráteknir eru fyrir viðkomandi fag í stundatöflu.

Vörðumat er gefið öllum nemendum skólans í öllum áföngum (að undanskyldum lotum í bíliðngreinum og málm- og véltæknigreinum) og skráð í Innu sem miðannarmat og er eingöngu aðgengilegt þar. Upplýsingar eru sendar til foreldra/forráðamanna nemenda undir 18 ára aldri um hvernig þeir geta nálgast matið.

Vörðumatið er umsögn um ástundun (virkni í tímum, heimavinnu, verkefnaskil, einkunnir á skyndiprófum, mætingu o.þ.h.) en ekki einkunn og á þannig að vera hvatning til nemandans um að halda áfram á réttri braut eða taka sig á.

Eftirfarandi einkunnarskali er notaður við vörðumat:

  • A = Afar góð ástundun. Þú stundar námið mjög vel og getur náð mjög góðum árangri í áfanganum
  • G = Góð ástundun. Þú stundar námið nægilega vel til að ná árangri í áfanganum.
  • V = Varla viðunandi. Þú þarft að bæta það sem fram kemur í umsögninni. Ræðum það nánar í viðtalinu.
  • Ó = Með þessu áframhaldi nærðu ekki árangri, sjá ástæðuna í umsögninni. Ræðum stöðuna nánar í viðtalinu.

Uppfært: 01/03/2023